Jun 14, 2013

Berlín

Oberbaumbrücke á skýjuðum vordegi. Án efa ein fallegasta brú borgarinnar.
Rathaus Tiergarten er ráðhúsið okkar. Þar fáum við stundum að bíða í röð í nokkra klukkutíma.
Það rigndi gríðarlega í nokkrar vikur í byrjun sumars. Þessi nágranni okkar lét það þó ekki stoppa sig við sínar reykingar.
Kaffistund í stofunni

Vísindanótt

Á hverju ári er svokölluð Vísindanótt í Berlín. Þá opna háskólar og vísindastofnanir dyrnar fyrir gestum og sýna afrakstur af vinnu sinni. Skólinn minn tekur alltaf þátt í þessari hátíð og okkar deild sýndi viðtöl sem tekin voru við allskyns fólk, m.a. vísinda- og stjórnmálamenn, rétt eftir fall múrsins árið 1990. Viðtölin voru löngu gleymd, en fundust fyrir nokkrum árum á videospólum sem varðveittar voru í safni kennslumyndbanda sem skólanum áskotnaðist árið 1999.

Fólk að horfa á viðtöl.
Júlía á strandbar skólans að hvíla sig eftir langan dag.
Sólsetur við Spree. Útsýnið af strandbarnum.
Við skoðuðum líka tölvusafn skólans. Hér er einn af kennurum skólans að spila tölvuleik á Commodore 64. Ég tók einn leik við kappann, en hann rústaði mér (enda búinn að vera að æfa sig í 30 ár).
Af hverju eru tölvur í dag ekki svona fallegar?

Spreepark

Við fórum um daginn í leiðsögn um hinn fornfræga skemmtigarð Spreepark. Garðurinn fór á hausinn árið 2001 og hefur drabbast niður síðan. Dóttir eigandans sá um túrinn, en fjölskylda hennar var vægast sagt í sviðsljósinu á sínum tíma. Pabbi hennar og bróðir áformuðu að bjarga fjárhagnum með því að smygla smá kókaíni til Þýskalands (167kg) inni í skemmtitæki sem hann var að flytja inn frá Perú. Það fór allt mjög illa og þeir feðgar sitja í fangelsi, faðirinn í Þýskalandi og sonurinn í Perú.

Dóttirin sem sá um gönguferðina dregur ekkert undan og er til í að svara öllum spurningum um garðinn og fjölskylduna. Afar áhugavert í alla staði.

Þetta er víst stærsti og jafnframt dýrasti vatnsrússíbani í Evrópu. Skemmtileg en slæm ákvörðun að byggja hann segir leiðsögumaðurinn.
Tómir bátar í vatnsrússíbananum.
Skógurinn að taka yfir.
Öll mannvirkin eru að drabbast niður. Hér er inngangur í einn rússíbanann.
Rússíbanarnir eru að hverfa í gróðurinn. 
©Júlía Björnsdóttir
Engar raðir síðan 2001. ©Júlía Björnsdóttir
Svona líta flest mannvirkin út í Spreepark. ©Júlía Björnsdóttir
Parísarhjólið sést víða að. Það snýst stundum þegar það er mikill vindur, en vagnarnir eru víst að ryðga í sundur og því ekki öruggt að setjast uppí þá.  
Svona líta vagnarnir út þegar að hjólinu er komið. Leiðsögumaðurinn sagðist ekki þora að setjast í þá og þá væru virkilega eitthvað að. Hún sagði okkur nefnilega líka að þessi stórmerkilega fjölskylda hefði alltaf prófað öll ný tæki í garðinum áður en að eftirlitsmennirnir hefðu komið nálægt þeim til að öryggisvotta þau. ©Júlía Björnsdóttir

©Júlía Björnsdóttir
Risaeðlur á víð og dreif.
Svanabátarnir eru að sökkva í leðjuna.
Allstaðar sést parísarhjólið. ©Júlía Björnsdóttir
Þessir tveir félagar voru við inngang garðsins og manni kom vissulega tímaflakk í hug. ©Júlía Björnsdóttir

Nokkrir gestir

Pabbi og mamma komu í heimsókn yfir páskana, beint eftir vinnuferð til London og Milano. Við reyndum að gefa þeim smá að borða.
Óli kíkti í verkfallsfrí til Berlínar. Við fórum í langan hjólatúr, meðal annars í gegnum almenningsgarðinn á Tempelhof flugvelli.
Fátt betra en pizza og Afri-Cola.
Leópold og Steinunn komu í brunch fyrir stuttu. Við tókum langa umræðu um pólitíkina á Íslandi. 

Sýningar

Við erum búin að vera með nokkrar sýningar í heimagallerýinu okkar, 13m, í ár. 

Þann 26. janúar opnaði Dylan Taylor sýninguna sína A-Z Musical Heroes. Dylan er grafískur hönnuður og sýndi verk í vinnslu. Meira um það hér.
Guðrún Olsen og Elísabet Olka opnuðu þann 27. apríl samsýningu. Verk Guðrúnar kallast Totem og Elísabet Olka sýndi Material in progress.
Sýning Kristínar S. Garðarsdóttur Loose Rein eða Slakur Taumur opnaði þann 27. maí. Kristín vinnur aðallega með keramik en sýndi hér skissur og hugmyndir sem hún vann hér í Berlín. Hér er á myndinni er Kristín (t.v.) ásamt hressum sýningargesti.

Potsdam

Í mars fórum við í dagsferð til Potsdam, höfuðborgar Brandenburgar. Tekur ekki nema 40 mín með lestinni að komast þangað.

Í Potsdam er Filmmuseum, enda eitt stærsta kvikmyndaver Þýskalands, Babelsberg, staðsett í borginni.

Borgin var byggð upp með það sjónarmið að draga að handverksfólk frá öðrum löndum. Hér er Júlía í hollenska hverfinu.

Það var ískalt og öll vötn frosin.

Í þessari höll, Cecilienhof, hittust þeir félagar Stalín, Churchill og Truman til þess að skipta með sér evrópu eftir seinni heimsstyrjöldina.

Júlía við Sanssouci, höll prússlandskonungsins Friðriks Mikla. Þýðing á nafni hallarinnar gæti verið Áhyggjuleysi. Við verðum víst að heimsækja Potsdam aftur að sumri til þess að upplifa hallargarðinn í fullum skrúða.

Apr 18, 2013

Vorið er komið og grundirnar gróa...

Nú um helgina kom vorið loksins hingað til Berlínar og við hjónin fórum að sjálfsögðu út að skoða borgina. Á laugardaginn hjóluðum við um Kreuzberg og á sunnudag skoðuðum við stórtækar framkvæmdir í Mitte.

Í Kreuzberg er fólk farið að vinna í görðunum sínum.
Í Kreuzberg stendur líka þessi litli kartöfluskúr (rauða húsið), Baumhaus an der Mauer, sem framtakssamur maður af tyrkneskum uppruna byggði sér á einskismannslandi í skugga múrsins. Einhverra hluta vegna fékk hann að halda kartöflugarðinum eftir að múrinn féll.

Margir Þjóðverjar eru á móti kjarnorkuverum og þetta gula og rauða merki er ekki óalgeng sjón, sérstaklega í vinstrisinnaðasta hverfi Berlínar.
Við Rauða Ráðhúsið er verið að byggja nýja lestarstöð sem mun tengjast nýrri neðanjarðarlínu.
Eins og sést er þetta ekki neitt dúttl. Hér er byrjunarreitur borsins sem notaður er til að bora göngin undir borgina.
Fimm hundruð metrum vestar er verið að endurbyggja Berliner Stadtschloss, sem var konungshöll Hohenzollern ættarinnar sem réði ríkjum í Prússlandi.
Hér stendur Frau Reiseleiterin Björnsdóttir við framkvæmdasvæðið, en í bakgrunni eru dómkirkjan og sjónvarpsturninn frægi
Svona leit þessi mikla höll út í kring um 1920, en hún var svo rifin árið 1950 af yfirvöldum DDR (mynd fengin héðan).
Hér er mynd frá um 1900 sem sýnir ágætlega stærð hallarinnar og umfang þeirra framkvæmda sem eru í gangi í dag (mynd fengin héðan.
Á árunum 1973-1976 reis svo Palast der Republik á þeim stað sem Prússahöllin hafði staðið, en þessi bygging átti að þjóna miklu menningarhlutverki. Hér voru listagallerí, leikhús, samkomusalir og kaffihús. Húsinu var hinsvegar lokað árið 1990 vegna asbestmengunar og var loks rifið á árunum 2006-2008 (mynd fengin héðan)

Um fimm hundruð metrum norðar á Safnaeyjunni er svo verið að byggja nýtt listasafn. Mér þykir alltaf jafn gaman að sjá þessar stóru vinnuvélar á prömmum á ánni Spree. 
Þetta eru þó ekki nærri allar stóru framkvæmdirnar sem eru í gangi í Mitte því verið er að tengja tvær neðanjarðarlínur á breiðgötunni Unter den Linden, endurbyggja Byggingaakademíu Schinkels (eins frægasta arkítekts Prússa) og gera upp óperuhús Deutsches Staatsoper, svo eitthvað sé nefnt.

Mar 13, 2013

Ísland, fagra Ísland...

 Nú á mánudag lauk tveggja vikna heimsókn minni til Íslands. Hér eru nokkrar myndir frá henni.

Fyrsti viðkomustaður: Fjarðarkaup.

Júlía ljósmyndar brimið við Eyrarbakka.

Við hjónin skoðuðum frábæra sýningu á Kjarvalsstöðum, Flæði. Mæli með að allir kíkji að minnsta kosti einu sinni á hana.

Fjör í Garðastræti.

Dekkjaverkstæði á Suðurlandi.

Við hjónin tókum nokkrum sinnum strætó.

Útsýnið var þó ekki alltaf mikið.

Urriðafoss í vatnavöxtum.
Óveður.

Kettirnir fóru bara út næsta dag.

Svo lagði Úlfur sig í baðherbergisvaskinum.

Útsýni frá Kárastíg.

Litagleði við Njálsgötu.

Miðbær.


Hafnarrúntur í Keflavík á leiðinni á flugvöllinn.

Svona eru Suðurnes.