Apr 18, 2013

Vorið er komið og grundirnar gróa...

Nú um helgina kom vorið loksins hingað til Berlínar og við hjónin fórum að sjálfsögðu út að skoða borgina. Á laugardaginn hjóluðum við um Kreuzberg og á sunnudag skoðuðum við stórtækar framkvæmdir í Mitte.

Í Kreuzberg er fólk farið að vinna í görðunum sínum.
Í Kreuzberg stendur líka þessi litli kartöfluskúr (rauða húsið), Baumhaus an der Mauer, sem framtakssamur maður af tyrkneskum uppruna byggði sér á einskismannslandi í skugga múrsins. Einhverra hluta vegna fékk hann að halda kartöflugarðinum eftir að múrinn féll.

Margir Þjóðverjar eru á móti kjarnorkuverum og þetta gula og rauða merki er ekki óalgeng sjón, sérstaklega í vinstrisinnaðasta hverfi Berlínar.
Við Rauða Ráðhúsið er verið að byggja nýja lestarstöð sem mun tengjast nýrri neðanjarðarlínu.
Eins og sést er þetta ekki neitt dúttl. Hér er byrjunarreitur borsins sem notaður er til að bora göngin undir borgina.
Fimm hundruð metrum vestar er verið að endurbyggja Berliner Stadtschloss, sem var konungshöll Hohenzollern ættarinnar sem réði ríkjum í Prússlandi.
Hér stendur Frau Reiseleiterin Björnsdóttir við framkvæmdasvæðið, en í bakgrunni eru dómkirkjan og sjónvarpsturninn frægi
Svona leit þessi mikla höll út í kring um 1920, en hún var svo rifin árið 1950 af yfirvöldum DDR (mynd fengin héðan).
Hér er mynd frá um 1900 sem sýnir ágætlega stærð hallarinnar og umfang þeirra framkvæmda sem eru í gangi í dag (mynd fengin héðan.
Á árunum 1973-1976 reis svo Palast der Republik á þeim stað sem Prússahöllin hafði staðið, en þessi bygging átti að þjóna miklu menningarhlutverki. Hér voru listagallerí, leikhús, samkomusalir og kaffihús. Húsinu var hinsvegar lokað árið 1990 vegna asbestmengunar og var loks rifið á árunum 2006-2008 (mynd fengin héðan)

Um fimm hundruð metrum norðar á Safnaeyjunni er svo verið að byggja nýtt listasafn. Mér þykir alltaf jafn gaman að sjá þessar stóru vinnuvélar á prömmum á ánni Spree. 
Þetta eru þó ekki nærri allar stóru framkvæmdirnar sem eru í gangi í Mitte því verið er að tengja tvær neðanjarðarlínur á breiðgötunni Unter den Linden, endurbyggja Byggingaakademíu Schinkels (eins frægasta arkítekts Prússa) og gera upp óperuhús Deutsches Staatsoper, svo eitthvað sé nefnt.