Oct 30, 2012

Herzog

Einn af kennurum mínum þennan veturinn vinnur sem kvikmyndaforvörður hjá Deutsche Kinematek, sem er til húsa í Filmhaus við Potsdamer Platz. Hann bauð okkur nemendunum þangað sl. föstudag á málþing um leikstjórann Werner Herzog.

Filmhaus byggingin er hluti af Sony Center torginu við Potsdamer Platz.

Hér sést áhugafólk um Werner Herzog.
Dagskrá málþingsins var ansi fjölbreytt. Þar fjölluðu sex kvikmyndafræðingar og kvikmyndagerðamenn um nokkrar hliðar á þessum sérstaka og afkastamikla manni Werner Herzog, en af nógu efni er að taka því hann hefur leikstýrt yfir 60 myndum á 50 árum.

Oct 23, 2012

No school today...

...og þá skellir maður sér í eldhúsið. Var að prófa að baka flatkökur í fyrsta sinn. Held það hafi gengið ágætlega.
Fann uppskriftina hér. Ef að þið lumið á þaulreyndri uppskrift að flatkökum þá megið þið alveg deila henni með mér.

Vettvangsferð

Við lærum mikla efnafræði í skólanum og málmar spila stóra rullu í öllu okkar grúski. Því var ákveðið að fara með okkur í vetvangsferð í gamla málmnámu í Freiberg, sem að er rétt fyrir utan Dresden.
Freiberg er 40 þús. manna bær sem hefur verið til frá því 1186. Þar var námuvinnsla í um 800 ár eða til ársins 1969 en svæðið var mjög ríkt af silfri.

Alexander von Humboldt var aðalmaðurinn á svæðinu á 18. öldinni og stundaði sín fræði í Freiberg Bergakademie (námuháskólanum).

Við fórum að skoða akademíuna og hér sjást krakkarnir vera að skoða tækniminjasafn skólans.

Þar eru allskyns hlutir, t.d. þessi borhamar.
Þar eru líka fjöldi lampa og lugta, því ljós er víst ansi mikilvægt ofan í jörðinni.

Þaðan var líka ágætt útsýni yfir næstu þök.

Hér sést yfirborðshluti Reiche Zeche námunnar. Háskólinn á svæðinu á núna allar námurnar og rekur þær sem skólanámur og er auk þess með sýnisferðir.

Hér sést lyftan sem að við fórum í niður a 150m dýpi, en náman er í heild um 800m djúp.

Ég og Kim í góðum gír á 150m dýpi að hefja nokkurra kílómetra gönguferð í myrkrinu, en heildarlengd námuganganna í Freiberg er um 2.000 km!

Hópurinn að skoða eitthvað merkilegt.

Alvöru námur er með teinum og vögnum.

Þarna voru göngin einungis um 40cm breið á um 50-60m kafla. Sem betur fékk enginn innilokunarkennd. Ástæðan fyrir þessum þrengslum er sú að það var verið að elta málgrýtisæðar og ekki hoggið eða borað að óþarfa.
Hér er grjót úr námunni sem að er sérstaklega ríkt af baryt, sem notað er í hvítt lag á milli pappírs og silfurgelatíns í nútíma ljósmyndapappír. Þetta var því áhugaverð ferð fyrir mig til að sjá uppruna bæði silfurs og baryts sem eru efni sem ég vinn með daglega í náminu.
En það var voða gott að koma upp á yfirborðið og haustblíðuna eftir þrjár klukkustundir í myrkrinu og kuldanum.

Oct 22, 2012

Eldhúsleti

Ég hef ekki staðið mig í eldhúsinu undanfarið. Bakaði þó döðluköku eftir uppskrift frá Gróu á Flateyri.
Algjör bomba.

Urlaub

Við skelltum okkur í helgarferð til Austur-Berlínar um daginn. Fengum lánaða íbúð í Friedrichshain og vorum að sniglast þar í nokkra daga. Svolítið skrítið að fara í frí í eigin borg, en samt alveg mjög gaman.

Hér er húsið á móti. Það er mikið af götulist á þessu svæði.

Það er líka mikið meira framboð af góðu kaffi í Friedrichshain en í okkar hverfi.

Stórir húsgaflar eru þó um alla borg.

Við erum bæði orðin sjúk í Berlínardrykkinn  Club-Mate.

Við hittum nokkra vini í þessu ferðalagi, meðal annara Birtu, Dylan og Kristleif sem að bentu okkur á að prófa Ali Baba Platte (til vinstri á myndinni). Nú munum við skreppa reglulega austur fyrir múr bara til að gæða okkur á þessu góðgæti.

Skólinn er byrjaður aftur

Ég hóf mína þriðju önn í Hochscule für Technik und Wirtschaft Berlin fyrir þremur vikum. Það er búið að vera nóg að gera og því hefur verið lítið um blogg síðan.
Hér eru samnemendur mínir að njóta fyrstu kaffipásu vetrarins.

Meðal annars lærum við á þessari önn um hvernig hægt er að gera við myndir sem að vantar hluta í. Hér er árangur fyrstu æfingarinnar þar sem ég er búinn að fylla upp í gatið sem sést á vinstri myndinni með blýantsskyggingu. Ágætis árangur en ekki alveg ásættanlegur samkvæmt fræðunum.

Þessi elska er komin á langan bókaóskalista.

Með henni fylgja nefnilega þessi tvö spjöld...

...sem hjálpa mjög mikið við að þekkja í sundur mismunandi tengundir af ljósmyndapappír. Eitt af mörgum góðum hjálpartækjum ljósmyndaforvarðarins.

Góðir gestir

Við fengum skemmtilega fjölskyldu í helgarheimsókn um daginn þegar Jakob, Sóley og Óli litli kíktu til okkar í nokkra daga.
Hér eru allir að gúffa í sig hádegisverði.

Við Júlía pössuðum Óla í tvo tíma á meðan Jakob og Sóley kíktu á Sammlung Boros, sem er einkasafn nútímalistar sem Boros hjónin eru með til sýnis á heimili sínu í loftvarnabyrgi í miðbæ Berlínar.

Það var auðvelt að passa strákinn því hann vildi aðallega skoða tré og æfa sig að labba upp og niður tröppur.

Hér eru Óli og Júlía við loftvarnabyrgið.

Svo fórum við að sjálfsögðu með gestina út að borða á Monsieur Vuong.

Það er algjört möst.

Óli fékk skammir fyrir að plokka í hátalarann. Jakob fékk einmitt skammir fyrir að pota í þennan sama hátalara þegar hann var lítill og vitlaus.

Sá litli var ekki lengi að jafna sig því hann fékk að fara á róló og skoða dýrin í Hasenheide almenningsgarðinum.

Þessir góðu gestir skildu svo eftir fallegar plöntur í eldhúsglugganum okkar þegar að þau fóru. Takk fyrir komuna!