Dec 13, 2012

Fyrsti í jólabakstri

Við fengum fyrsta jólakortið í dag. Það er frá Rúnu ömmu, en hún sendi líka litla uppskriftabók með. Alltaf jafn gaman að fá kort og uppskriftir. Ég skellti mér eiginlega beint í bakstur og valdi hnoðaða lagköku til að spreyta mig á. Þurfti reyndar að hringja í hana ömmu til að fá smá leiðbeiningar þar sem uppskriftin var ekki alveg nógu nákvæm að mínu mati (sem er reyndar vandamál með flestar uppskriftir sem ég fæ (Af hverju ætli það sé?)). Eftir stutt spjall komumst við að því í sameiningu að smjörið átti að klípa útí en ekki að bræða.
Fyrsta lagkakan mín heppnaðist bara ágætlega að ég held, þrátt fyrir að ég hafi notað sveskjusultu í stað rabbarbara- vegna lítils framboðs á þeirri síðarnefndu í stórmörkuðum Berlínarborgar.

Þrjú stykki, reyndar dálítið þunnar.

Takk kærlega fyrir kortið og uppskriftaheftið elsku Rúna amma.

Nov 28, 2012

Brauðtilraun á miðvikudegi

Venjulega er það Júlía sem sér um að baka brauð á heimilinu og gerir þá oftast súrdeigsbrauð. Í dag var hinsvegar brauðlaust og því ákvað ég að gera smá tilraunabakstur. Fann þessa uppskrift að rúgmjöls og hunangs brauði hjá The Guardian. Mjög fljótlegt og útkoman er lítill, fínn og bragðgóður hádegishleifur.

Ég ætla að prófa að setja hunang, geitaost og tómata á þetta nýja brauð.

Nov 25, 2012

Tiergarten

Ég átti leið í gegnum Tiergarten á leið minni heim úr vettvangsferð á Potsdamer Platz í vikunni. Tók eftir því að ennþá hanga nokkur lauf á trjánum, enda hefur haustið verið ansi stillt og milt. Þau lauf sem fallið hafa liggja svo eins og teppi yfir jörðinni. Ekki slæmt að fá að njóta haustlitanna í svona langan tíma.



Nov 20, 2012

Medienarchiv

Við höfum eytt dágóðum tíma í kjallara skólans undanfarið því þar er Medienarchiv sem við göngum dálítið í. Þar eru geymd kennslumyndbönd á filmum og segulböndum, hljóðupptökur á segulböndum, kennslumyndir á glærum og slides-myndum og kennsluhefti sem fylgja þessu öllu, en allt þetta efni var framleitt fyrir DDR og stofnunin sem sá um það hét IFBT eða Institut für Film, Bild und Ton. Þegar múrinn féll og Austur- og Vestur-Þýskaland sameinuðust þá endaði allt efnið frá þessari stofnun í kjallara skólans og hefur verið þar síðan, enda um úrvals æfingarefni að ræða.

Hér má sjá hluta þessa Medienarchivs. Vinstra megin eru skápar sem geyma videokassettur, hægra megin eru kennsluhefti, glærur og slides-myndir, hljóðsegulbönd, tölvuforrit á segulböndum og kvikmyndir á filmum.

Eins og sjá má er af nógu að taka fyrir okkur nemendurna.

Af þessu má líka læra ýmislegt annað en bara hvenig ganga á um filmur því kennsluefnið er fjölbreytt. Meðal titla sem ég sá voru „Rafeindatækni á rússnesku", „Enska fyrir byrjendur“, „Inngangur að hjartaskurðlækningum“ og „Stjórnun tölvustýrðra rennibekkja“.

Köben

Við hjónin fórum í helgarferð til Kaupmannahafnar sl. helgi. Meginástæðan fyrir reisunni var sú að okkur var boðið í brúðkaup hjá Birgi og Birgitte, vinum okkar af Nørrebro, en við nýttum auðvitað ferðina líka til þess að hitta aðra vini og skoða gamlar heimaslóðir. Ég tók þó ekki margar myndir í þessari ferð enda kannski ekki hinn heitasti aðdáandi borgarinnar lengur. Hér má þó sjá þær fáu sem ég tók.

Júlía náði að lesa aðeins í þessu 45 mín. flugi á milli borganna.
Hún Þórhildur leyfði okkur að gista hjá sér í fallegu íbúðinni hennar á Valkyrjugötu á Nørrebro. Þar væsti sko ekki um okkur.
Við hittum Ingu Rún og Ólaf í Nørrebroparken á laugardagsmorgni. 

Þar fann Ólafur flugvél og vildi endilega fá sem flesta farþega, sem hann rukkaði svo um fimmkall fyrir farið.

Brúðkaup Birgis og Birgitte var haldið í Blågårdskirke og veislan í Nørrebrohallen. Danskt brúðkaup líkist íslensku en þeir eru mikið fyrir að halda ræður.

Brúðhjónin dönsuðu svo, en dansinn endaði með því að gestir klipptu framan af sokkum brúðgumans.

Fyrir dansi spilaði hljómsveit bræðra brúðarinnar, Neil Young Jam (sem er Neil Young cover band),  en brúðhjónin kynntust einmitt á tónleikum með þessari sömu hljómsveit árið 1996. Við skemmtum okkur konunglega.

Við hittum þessar krúttsprengjur í Skydabanehaven á sunnudagseftirmiðdegi. Frá vinstri: Ólafur Bragason, Óli Jakobsson Kaldal, Björn Ingi Bragason.


Foreldrar og vinir voru með í för. Þórhildur, Ingibjörg, Inga Rún, Jakob, Bragi og Júlía.

Hér er Júlía svo í sinni heittelskuðu S-Tog á leið í gegnum sundurgrafna borgina, en í Køben er verið að framkvæma ansi margt s.s. að rífa Scala húsið, endurbyggja Industriens Hus, stækka og breyta Nørreport stöðinni og bæta við 10-15 neðanjarðarlestarstöðvum.

Nov 10, 2012

Filmprojekt

Síðustu tvær vikur hafa verið verkefnavikur í skólanum. Þær hafa snúist algjörlega um grunnhandtök og -hugtök í kvikmyndaforvörslu. Kennarinn okkar í þessum fræðum er forstöðumaður Deutsche Kinemathek og kom meðal annars að endurgerð Metropolis (meira um það hér)

Það fyrsta sem að við lærðum er að spóla filmum á nýjan kjarna, en filmur hafa jú upphaf og enda og því þarf að "spóla til baka" fyrir og eftir notkun. Við erum með tvær fornar vélar til þessa verks, önnur er þýsk og rafknúin en hin er pólsk og handknúin. Þetta er þó ekki eins og að spóla videospólu til baka því stöðugt þarf að hafa fingurna á filmunni til þess að hún leggist rétt (og að sjálfsögðu erum við í hvítum bómullarhönskum). 

Næsti dagur fór í það að læra um hin fjölmörgu mismunandi tegundir af filmum, bæði eru þær úr mismunandi efnum (nitrat, acetat og polyester) og í fjölmörgum stærðum. Auk þess eru myndirnar sjálfar á filmunum af mismunandi stærðum og hljóðsporin mjög mismunandi. Svo er gott að kunna sem flest tungumál til að geta lesið á dósirnar.

Hér má sjá nokkrar tegundir af filmum, t.d. 8mm, Super 8mm, 9,5mm, 16mm, 17,5mm og 35mm.

Svo eru jú líka spurning hvort að um negatívu eða pósitívu sé að ræða.

Næst lærðum við að klippa út skemmda filmuramma og splæsa filmunni saman aftur. Það er hægt að gera með fljótandi lími eða með límbandi. Til þess notum við ótal verkfæri sem sérsniðin eru að hverri filmustærð og svo sitt hvort settið fyrir 35mm pósitívur og negatívur, því götin á köntunum í þeirri stærð eru misstór. 
Kvikmyndirnar sjálfar getum við síðan skoðað á svokölluðu klippiborði. Við notum borðin að sjálfsögðu minnst til þess að klippa því við reynum að varðveita sem mest af efni og gerum því frekar við filmurnar en að klippa út myndaramma. Þegar við skoðum myndirnar skráum við síðan niður ástand filmunnar t.d. hvort mikið sé af rispum, hvort kantarnir séu brotnir eða hvort hún sé illa klippt.
Til þess að æfa okkur á borðinu fengum við 35mm kópíu af hinni þöglu Der Golem, wie er in die Welt kam

Þegar unnið er á klippiborði er mikið atriði að þræða filmuna rétt í gegn því annars getur filman skemmst. Auk þess að spila myndina er hægt að spila auka hljóðspor sem eru þá yfirleitt á segulbandi.

Hér má sjá mjög slæma klippingu í gegnum einn ramma myndarinnar Der Golem, sem hefur verið límd í snarhasti með glæru límbandi. 

Að sjálfsögðu þarf síðan sitt hvort klippiborðið fyrir mismunandi fimustærðir. Hér er ég að bera saman tvö eintök af sömu myndinni sem bæði eru á 16mm filmu. Það verður að sjálfsögðu ekki einfaldara að þræða vélina með tvö eintök í einu.

Æfingarverkefni vetrarins verður síðan að bera saman eintök af allskyns kennslumyndböndum frá DDR, skrásetja allar skemmdir í myndunum og síðan verður besta eintakið af hverri mynd sent til varðveislu í Bundesarchiv, en þar er einmitt hann Oliver skólafélagi minn að vinna meðfram meistaranámi. Þetta er margra ára verkefni því að í kjallara skólans eru geymd mörg hundruð slíkra kennslumyndbanda.

Oct 30, 2012

Herzog

Einn af kennurum mínum þennan veturinn vinnur sem kvikmyndaforvörður hjá Deutsche Kinematek, sem er til húsa í Filmhaus við Potsdamer Platz. Hann bauð okkur nemendunum þangað sl. föstudag á málþing um leikstjórann Werner Herzog.

Filmhaus byggingin er hluti af Sony Center torginu við Potsdamer Platz.

Hér sést áhugafólk um Werner Herzog.
Dagskrá málþingsins var ansi fjölbreytt. Þar fjölluðu sex kvikmyndafræðingar og kvikmyndagerðamenn um nokkrar hliðar á þessum sérstaka og afkastamikla manni Werner Herzog, en af nógu efni er að taka því hann hefur leikstýrt yfir 60 myndum á 50 árum.

Oct 23, 2012

No school today...

...og þá skellir maður sér í eldhúsið. Var að prófa að baka flatkökur í fyrsta sinn. Held það hafi gengið ágætlega.
Fann uppskriftina hér. Ef að þið lumið á þaulreyndri uppskrift að flatkökum þá megið þið alveg deila henni með mér.

Vettvangsferð

Við lærum mikla efnafræði í skólanum og málmar spila stóra rullu í öllu okkar grúski. Því var ákveðið að fara með okkur í vetvangsferð í gamla málmnámu í Freiberg, sem að er rétt fyrir utan Dresden.
Freiberg er 40 þús. manna bær sem hefur verið til frá því 1186. Þar var námuvinnsla í um 800 ár eða til ársins 1969 en svæðið var mjög ríkt af silfri.

Alexander von Humboldt var aðalmaðurinn á svæðinu á 18. öldinni og stundaði sín fræði í Freiberg Bergakademie (námuháskólanum).

Við fórum að skoða akademíuna og hér sjást krakkarnir vera að skoða tækniminjasafn skólans.

Þar eru allskyns hlutir, t.d. þessi borhamar.
Þar eru líka fjöldi lampa og lugta, því ljós er víst ansi mikilvægt ofan í jörðinni.

Þaðan var líka ágætt útsýni yfir næstu þök.

Hér sést yfirborðshluti Reiche Zeche námunnar. Háskólinn á svæðinu á núna allar námurnar og rekur þær sem skólanámur og er auk þess með sýnisferðir.

Hér sést lyftan sem að við fórum í niður a 150m dýpi, en náman er í heild um 800m djúp.

Ég og Kim í góðum gír á 150m dýpi að hefja nokkurra kílómetra gönguferð í myrkrinu, en heildarlengd námuganganna í Freiberg er um 2.000 km!

Hópurinn að skoða eitthvað merkilegt.

Alvöru námur er með teinum og vögnum.

Þarna voru göngin einungis um 40cm breið á um 50-60m kafla. Sem betur fékk enginn innilokunarkennd. Ástæðan fyrir þessum þrengslum er sú að það var verið að elta málgrýtisæðar og ekki hoggið eða borað að óþarfa.
Hér er grjót úr námunni sem að er sérstaklega ríkt af baryt, sem notað er í hvítt lag á milli pappírs og silfurgelatíns í nútíma ljósmyndapappír. Þetta var því áhugaverð ferð fyrir mig til að sjá uppruna bæði silfurs og baryts sem eru efni sem ég vinn með daglega í náminu.
En það var voða gott að koma upp á yfirborðið og haustblíðuna eftir þrjár klukkustundir í myrkrinu og kuldanum.

Oct 22, 2012

Eldhúsleti

Ég hef ekki staðið mig í eldhúsinu undanfarið. Bakaði þó döðluköku eftir uppskrift frá Gróu á Flateyri.
Algjör bomba.

Urlaub

Við skelltum okkur í helgarferð til Austur-Berlínar um daginn. Fengum lánaða íbúð í Friedrichshain og vorum að sniglast þar í nokkra daga. Svolítið skrítið að fara í frí í eigin borg, en samt alveg mjög gaman.

Hér er húsið á móti. Það er mikið af götulist á þessu svæði.

Það er líka mikið meira framboð af góðu kaffi í Friedrichshain en í okkar hverfi.

Stórir húsgaflar eru þó um alla borg.

Við erum bæði orðin sjúk í Berlínardrykkinn  Club-Mate.

Við hittum nokkra vini í þessu ferðalagi, meðal annara Birtu, Dylan og Kristleif sem að bentu okkur á að prófa Ali Baba Platte (til vinstri á myndinni). Nú munum við skreppa reglulega austur fyrir múr bara til að gæða okkur á þessu góðgæti.