Nov 10, 2012

Filmprojekt

Síðustu tvær vikur hafa verið verkefnavikur í skólanum. Þær hafa snúist algjörlega um grunnhandtök og -hugtök í kvikmyndaforvörslu. Kennarinn okkar í þessum fræðum er forstöðumaður Deutsche Kinemathek og kom meðal annars að endurgerð Metropolis (meira um það hér)

Það fyrsta sem að við lærðum er að spóla filmum á nýjan kjarna, en filmur hafa jú upphaf og enda og því þarf að "spóla til baka" fyrir og eftir notkun. Við erum með tvær fornar vélar til þessa verks, önnur er þýsk og rafknúin en hin er pólsk og handknúin. Þetta er þó ekki eins og að spóla videospólu til baka því stöðugt þarf að hafa fingurna á filmunni til þess að hún leggist rétt (og að sjálfsögðu erum við í hvítum bómullarhönskum). 

Næsti dagur fór í það að læra um hin fjölmörgu mismunandi tegundir af filmum, bæði eru þær úr mismunandi efnum (nitrat, acetat og polyester) og í fjölmörgum stærðum. Auk þess eru myndirnar sjálfar á filmunum af mismunandi stærðum og hljóðsporin mjög mismunandi. Svo er gott að kunna sem flest tungumál til að geta lesið á dósirnar.

Hér má sjá nokkrar tegundir af filmum, t.d. 8mm, Super 8mm, 9,5mm, 16mm, 17,5mm og 35mm.

Svo eru jú líka spurning hvort að um negatívu eða pósitívu sé að ræða.

Næst lærðum við að klippa út skemmda filmuramma og splæsa filmunni saman aftur. Það er hægt að gera með fljótandi lími eða með límbandi. Til þess notum við ótal verkfæri sem sérsniðin eru að hverri filmustærð og svo sitt hvort settið fyrir 35mm pósitívur og negatívur, því götin á köntunum í þeirri stærð eru misstór. 
Kvikmyndirnar sjálfar getum við síðan skoðað á svokölluðu klippiborði. Við notum borðin að sjálfsögðu minnst til þess að klippa því við reynum að varðveita sem mest af efni og gerum því frekar við filmurnar en að klippa út myndaramma. Þegar við skoðum myndirnar skráum við síðan niður ástand filmunnar t.d. hvort mikið sé af rispum, hvort kantarnir séu brotnir eða hvort hún sé illa klippt.
Til þess að æfa okkur á borðinu fengum við 35mm kópíu af hinni þöglu Der Golem, wie er in die Welt kam

Þegar unnið er á klippiborði er mikið atriði að þræða filmuna rétt í gegn því annars getur filman skemmst. Auk þess að spila myndina er hægt að spila auka hljóðspor sem eru þá yfirleitt á segulbandi.

Hér má sjá mjög slæma klippingu í gegnum einn ramma myndarinnar Der Golem, sem hefur verið límd í snarhasti með glæru límbandi. 

Að sjálfsögðu þarf síðan sitt hvort klippiborðið fyrir mismunandi fimustærðir. Hér er ég að bera saman tvö eintök af sömu myndinni sem bæði eru á 16mm filmu. Það verður að sjálfsögðu ekki einfaldara að þræða vélina með tvö eintök í einu.

Æfingarverkefni vetrarins verður síðan að bera saman eintök af allskyns kennslumyndböndum frá DDR, skrásetja allar skemmdir í myndunum og síðan verður besta eintakið af hverri mynd sent til varðveislu í Bundesarchiv, en þar er einmitt hann Oliver skólafélagi minn að vinna meðfram meistaranámi. Þetta er margra ára verkefni því að í kjallara skólans eru geymd mörg hundruð slíkra kennslumyndbanda.

No comments: